Landvernd eru frjáls félagasamtök sem starfa að umhverfismálum til að vernda og bæta lífsgæðin í landinu. Hlutverk Landverndar er að standa vörð um íslenska náttúru og vera virkur þátttakandi í stefnumótun, fræðslu og upplýstri ákvarðanatöku í málum er varða landnotkun.
Samtökin líta svo á að náttúru- og umhverfisvernd, sem og endurreisn spilltra náttúrugæða, séu forsenda efnahagslegrar og samfélagslegrar velferðar til lengri tíma litið. Þau hvetja til sjálfbærrar umgengni þjóðarinnar við náttúruna heima við og á hnattræna vísu, sem byggir á öflugri umhverfisvitund, þekkingu og verndarvilja.
Innan Landverndar eru 40 aðildarfélög um allt land en auk þess eru rúmlega 5000 manns skráðir. Samtökin reka fjölmörg fræðsluverkefni en þar ber hæst Grænfánann, Bláfánann, landgræðsluverkefni með skólum á Suðurlandi, verkefni um náttúruvernd á jarðhitasvæðum o.fl. Samtökin voru stofnuð 1969.
Markmið landverndar.
Verndun náttúru og umhverfis Íslands á landi, í legi og í lofti svo þeim verði sem minnst spillt, okkur og komandi kynslóðum til handa.
Endurreisn spilltrar náttúru, náttúrugæða og umhverfis með þeim hætti er hæfir sem best náttúrulegum aðstæðum og búsetu í landinu.
Sjálfbær umgengni þjóðarinnar heima við og á hnattræna vísu, sem byggir á öflugri umhverfisvitund, þekkingu og verndarvilja.
Virk þátttaka Íslendinga í alþjóðasamstarfi um umhverfismál, þar sem þekkingu og reynslu er miðlað og leitað leiða til úrbóta.